25.7.2007 | 16:08
17-24 júlí
Hæ! Er komin úr útlegð Fór austur á firði voða stuð. Ætla að segja ykkur hvað hefur verið að gerast í þeirri útlegð en fyrst að segja frá því að vendingin hjá Önnu Maríu gekk rosalega vel (dugleg stelpa) og barnið hefur ekki snúið sér aftur heldur hefur það lausskorðað sig JIBBÍ þannig að það lítur út fyrir eðlilega fæðingu.
17 júlí lagði ég af stað austur á land nánar tiltekið fór ég á Grænahraun við Höfn að heimsækja ömmu. Gekk ferðin vel en svakalega heitt í bílnum (mæli ekki með því að vera að keyra í svona góðu veðri) maður var illa bakaður Kom austur um 5 leitið og var ekki sól á Höfn en milt og gott veður. Amma var að malla Saltkjöt og baunir handa minni
Hjá ömmu var ég til fimmtudags þá var brunað á Djúpavog og byrjaði ég á að skreppa til Önnu Sigrúnar hjá Hreppnum og var þar ákveðið að skella sér inn Fossárdal á laugardeginum og fara að veiða í Líkárvatni (hafði heyrst af fiski þar) og keyra svo hringinn og koma niður við Öxi. Eftir kaffisopann þar fór ég út á sanda að hlaupa og var það ekkert nema frábært. Eftir rúmlega klukkutíma dvöl þar fór ég að skoða hvort sundlaugin hefði nokkuð breyst en hún hafði bara batnað. Sundaðstaðan á Djúpavogi er bara frábær
Skrapp ég svo Við Voginn og hitti þar fullt af fólki meira að segja vinafólk mitt frá Reykjanesbæ
Föstudagur 20 júlí kl 7 fórum við Stjáni af stað á vit ævintýra Keyrðum við inn Geithellnadal og fórum við alla leið að Afrétt og lögðum bílnum þar kl. 08.45 og fórum upp með ánni Sunnu fórum yfir hana þegar ofar dró og gengum ofan við Göngufellið og komum upp á Sunnutind baksviðs séð frá Geithellnadal, skoðuðum tindinn vel og settumst á nefið á honum og fengum okkur kaffi og kleinurnar hennar Kristrúnar
Síðan skruppum við aðeins yfir á Þrándarjökul til að geta tekið myndir hehe. Löbbuðum síðan með Fossbrúnum og komum niður með Bótará og fengum okkur banana við Bótarfossinn. Þá áttum við eftir að fara að bílnum sem var frekar langt í burtu og þurftum við að fara yfir nokkrar efnilegar ár t.d. Morsa (óð upp á mið læri ) það var bara gaman, áður en þangað var komið. Vorum við komin að bílnum kl. 17.15. Reiknast okkur að þetta séu eitthvað á milli 18-20 km sem við gengum
Eftir þessa löngu göngu beið okkar kaffi og meðlæti hjá Sveitarstjóranum á Djúpavogi býr hann á Kerhömrum. Var maður nú nokkuð þreyttur eftir þetta ferðalag þannig að Stjáni æddi á Djúpa til að ég kæmist í sund. Var ég komin í heita pottinn rétt fyrir 8 og mýkti ég auma vöðva í hálftíma en þá var lauginni lokað. Fór ég til Sigga og Tenný í svaka humarveislu þannig að ekki svalt maður á þessum slóðum.
Laugardagur 21 júlí. Nú átti að fara að veiða í Líkárvatni. Lagt var af stað um 10 leitið og farið inn Fossárdal og keyrt eftir honum endilöngum. Stoppað við hvern foss og teknar myndir. Við stoppuðum líka við kofa sem er í Víðidalnum og kvittað fyrir komu okkar. Kom þá í ljós að Stjáni hafði verið þar 07.07.07 og farið að veiða í Líkárvatni en ekki veitt neitt ( held ég að hann vonist til að við veiðum ekki neitt) og honum varð að ósk sinni því þegar að vatninu var komið var komin svo mikil rigning að það var ekki hundi út sigandi. Og þessi vegarekkislóði var nú ekki bjóðandi hverjum sem er. Þegar við vorum komin að Merkjahrygg var ákveðið að taka smá lykkju og kíkja á Bjarnarhíði sem er svoldið innar við Ódáðavötn (ca hálftíma akstur frá gatnamótum) spurning hvernig Stjáni reiknar hálftímann en í Bjarnarhíði komumst við og er þetta flottur bústaður sem mikið er búið að vinna í og var nýbúið að gera pall fyrir utan og allt voða notalegt. Fengum við okkur nesti því var maður orðin svoldið svangur og héldum svo heim á leið. Stoppuðum næst við Folaldafoss sem er á leið niður af Öxi sem tröllið Skrímnir passar vel. Um kvöldið fórum ég, Anna Sigrún og Dúna að borða á Hótel Framtíð ummm það var sko gott og mjög skemmtileg stund. Á sunnudeginum fór ég í Skógræktina, þar er nú alltaf jafn fallegt og af því ég var að fara á Höfn aftur til ömmu þá skrapp ég á sandana og ætlaði bara að rölta þá en stóðst ekki mátið þegar þangað var komið og hljóp þá þvera og endilanga og fór svo að vaða í sjónum það var nú bara snilld.
Mánudagur 23 júlí. Við amma vorum að dúlla okkur fyrir hádegi, fórum í búðina, apótekið og svoleiðis. Eftir hádegið komu Ninni og Stefa í heimsókn og var þar glatt á hjalla frameftir degi. Þriðjudagur 24 júlí keyrði ég heim á leið. Er mjög ánægð með þetta ferðalag Tók Önnu Maríu tengdadóttur upp í á Selfossi, hafði hún verið í skoðum og leit þetta allt mjög vel út nema hún á ekki að vera alltaf að elta köttinn heldur kúra með honum
. Alltaf er gott að koma heim. Maður finnur það alltaf þegar maður er búin að vera í burtu í nokkra daga
KVEÐJA
Athugasemdir
Velkomin aftur ..þetta hefur greinilega verið yndælis ferð -fínar myndir .
Margrét M, 26.7.2007 kl. 08:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.